Knattspyrnumaðurinn Trent Alexander-Arnold verður fjarri góðu gamni þegar Liverpool heimsækir Wolves í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun.
Alexander-Arnold, sem er 24 ára gamall, haltraði af velli í síðari hálfleik þegar Liverpool vann öruggan 3:0-sigur gegn Aston Villa á Anfield í ensku úrvalsdeildinni þann 3. september.
Hann meiddist á læri í leiknum og gat af þeim sökum ekki tekið þátt í landsliðsverkefnum Englands í landsleikjaglugganum gegn Úkraínu og Skotlandi.
Alexander-Arnold gat ekki tekið þátt í æfingu liðsins í gær vegna meiðslanna að því er fram kemur í frétt staðarmiðilsins í Liverpool, Liverpool Echo.
Liverpool er með tíu stig í þriðja sæti deildarinnar eftir fyrstu fjórar umferðirnar en Alexander-Arnold ætti að vera orðinn klár í slaginn í næstu viku.