Þrátt fyrir afleitan fyrri hálfleik vann Liverpool góðan endurkomusigur á Úlfunum, 3:1, á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Heimamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru með öll völd á vellinum í upphafi leiks. Liðið var meira með boltann fyrstu mínúturnar, vann öll einvígi og hélt Liverpool-liðinu algjörlega í skefjum. Fyrsta markið leit dagsins ljós strax á 7. mínútu en Pedro Neto fór þá mjög auðveldlega framhjá Joe Gomez og Joel Matip áður en hann lagði boltann fyrir markið á Hwang Hee-Chan sem mætti á fjærstöngina og setti boltann yfir línuna.
Markið virtist einfaldlega gefa heimamönnum byr undir báða vængi en áfram gekk gestunum frá Liverpool-borg brösulega að komast í takt við leikinn. Leikplan Wolves gekk fullkomlega upp en um leið og miðjumenn Liverpool fengu boltann mættu heimamenn í vel skipulagða pressu og beittu svo skyndisóknum.
Matheus Cunha fékk sannkallað dauðafæri til að tvöfalda forystu heimamanna á 34. mínútu eftir frábæran undirbúning Pedro Neto en hann virtist hreinlega misreikna flugið á fyrirgjöfinni og náði því ekki að gera sér mat úr færinu. Staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var því 1:0, heimamönnum í vil en forystan hefði hæglega getað verið talsvert stærri.
Liverpool gerði eina breytingu í hálfleik en Luis Díaz kom inn fyrir Alexis Mac Allister, sem átti vægast sagt erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik. Við það komst smá líf í leik liðsins og seinni hálfleikurinn var ekki nema 10 mínútna gamall þegar Cody Gakpo jafnaði metin af stuttu færi eftir frábæra sendingu frá Mohamed Salah.
Eftir markið voru gestirnir talsvert betri aðilinn á vellinum og voru líklegri til að skora, þrátt fyrir að heimamenn héldu áfram að beita hröðum sóknum. Varamaðurinn Darwin Núnez fékk sannkallað dauðafæri á 70. mínútu en Jose Sá varði frábærlega frá honum.
Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma komst Liverpool svo yfir. Andy Robertson var þá með boltann á miðjunni, lagði hann út til hægri á Mo Salah og hélt hlaupinu áfram inn í teiginn. Þar fann Salah hann aftur og Skotinn kláraði smekklega á nærstönginni, framhjá Jose Sá. Var þetta 200. deildarleikur Robertson fyrir Liverpool og var hann með fyrirliðabandið í þokkabót í fjarveru Virgil van Dijk og Trent Alexander-Arnold.
Á fyrstu mínútu uppbótartíma gerði svo varamaðurinn Harvey Elliott út um leikinn. Mo Salah fékk boltann þá hægra megin í teignum og lagði hann út á Elliott sem smellti boltanum í stöngina og inn, með smá viðkomu af varnarmanni. Markið gæti orðið skráð sem sjálfsmark en ef svo verður ekki var þetta þriðja stoðsending Salah í leiknum.
Niðurstaðan því góður 3:1-sigur gestanna sem fara á topp deildarinnar með 13 stig, stigi meira en Manchester City sem á þó leik til góða. Úlfarnir eru í 15. sæti með 3 stig eftir 5 leiki.