Knattspyrnumaðurinn Aaron Wan-Bissaka, hægri bakvörður Manchester United, verður frá vegna meiðsla næstu vikurnar.
Í tilkynningu frá félaginu segir að grunur leiki á því að Wan-Bissaka, sem hafði hafið tímabilið af krafti, hafi meiðst illa aftan á læri undir lok leiks gegn Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni á laugardag.
Af þeim sökum megi búast við því að hann verði frá í nokkrar vikur.
Manchester United tapaði leiknum gegn Brighton 1:3 og er aðeins með sex stig í 13. sæti deildarinnar að loknum fimm umferðum.