Fyrrverandi knattspyrnuþjálfarinn Barry Bennell er látinn, 69 ára að aldri. Bennell lést í fangelsi, þar sem hann afplánaði 34 ára dóm fyrir yfir 50 kynferðisbrot gegn alls 24 drengjum.
Bennell var með krabbamein og dró meinið hann til dauða í Littlehey-fangelsinu á laugardag.
Hann var árið 2018 dæmdur fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn drengjum á aldrinum átta til fimmtán ára og fékk þá 30 ára fangelsisdóm.
Árið 2020 var Bennell dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar til viðbótar fyrir kynferðisbrot gegn tveimur ungum drengjum.
Hann var um langt skeið þjálfari yngri flokka hjá Crewe Alexandra og þjálfaði einnig yngri flokka hjá Stoke City. Þá vann hann sem njósnari hjá Manchester City.
Forsvarsmenn Crewe vissu af misnotkuninni á síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar en Bennell fékk engu að síður að halda áfram þjálfun yngri flokka hjá félaginu árum saman eftir það.
Hann fékk fjögurra ára dóm fyrir að nauðga breskum dreng á fótboltaferðalagi í Flórída í Bandaríkjunum árið 1994. Þá fékk Bennell einnig níu ára dóm fyrir 23 brot gegn sex drengjum á Englandi árið 1998.