Nýliðar Burnley náðu í sitt fyrsta stig á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er liðið gerði 1:1-jafntefli við Nottingham Forest á útivelli í viðburðaríkum leik í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley og liðsfélagi hans Zeke Zmdouni skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 41. mínútu.
Callum Hudson-Odoi, sem kom til Forest frá Chelsea á dögunum, jafnaði með glæsilegu marki á 61. mínútu og þar við sat. Jóhann fór af velli þremur mínútum eftir jöfnunarmarkið.
Þótt hvorugt liðið hafi bætt við marki var nóg um að vera á lokakaflanum, sérstaklega hjá Lyle Foster hjá Burnley.
Hann hélt hann væri að koma liðinu yfir á ný á 78. mínútu en mark sem hann skoraði var dæmt af vegna hendi. Mótlætið fór illa í Foster, því hann fékk beint rautt spjald fyrir olnbogaskot í uppbótartíma.
Forest er í áttunda sæti með sjö stig, en Burnley er enn í 19. sæti, nú með eitt stig. Luton er nú eina liðið án stiga.