Tjáir sig um framtíð Salah

Mohamed Salah og Harvey Elliott á góðri stundu.
Mohamed Salah og Harvey Elliott á góðri stundu. AFP/Paul Ellis

Enski knattspyrnumaðurinn Harvey Elliott, leikmaður Liverpool, kveðst vonast til þess að egypski sóknarmaðurinn Mohamed Salah verði hjá félaginu út ferilinn.

Salah lagði upp tvö mörk og átti stóran þátt í þriðja markinu ásamt Elliott þegar Liverpool vann Wolverhampton Wanderers 3:1 í ensku úrvalsdeildinni á laugardag.

„Mo er ótrúlegur, bæði sem leikmaður og manneskja. Sjö, níu, þrettán að hann fari aldrei nokkurn tímann því ég er að reyna að læra af af honum og bæta við leik minn.

Vonandi fer hann hvergi og er hér út ferilinn. Að læra af honum er draumur að rætast,“ sagði Elliott í samtali við The Athletic.

Salah var þráfaldlega orðaður við brottför til sádi-arabísku meistaranna í Al-Ittihah í byrjun mánaðarins en Liverpool hafnaði öllum tilboðum í hann.

„Það er svo erfitt að verjast honum. Hann er með augu alls staðar. Við sjáum það í hverri viku. Hann er ekki einungis frábær í að klára færin sín eins og allir hafa séð því það sama má segja um sköpunarmátt hans. Það er alltaf hægt að reiða sig á hann,“ bætti Elliott við.

mbl.is