Góðar fréttir úr herbúðum United

Raphael Varane æfði í morgun.
Raphael Varane æfði í morgun. AFP/Lindsey Parnaby

Raphael Varane, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, tók virkan þátt í æfingu liðsins í morgun.

Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu en Varane, sem er þrítugur, hefur misst af síðustu tveimur leikjum liðsins vegna meiðsla.

Miðvörðurinn gekk til liðs við United frá Real Madrid sumarið 2021 og er lykilmaður á Old Trafford en hann verður hins vegar fjarri góðu gamni þegar United heimsækir Bayern München í A-riðli Meistaradeildarinnar.

Mason Mount æfði einnig með United í morgun eftir að hafa misst af síðustu þremur leikjum liðsins en United hefur ekki gengið vel í síðustu leikjum sínum og tapaði til að mynda illa fyrir Brighton í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn, 3:1, á Old Trafford.

mbl.is