Lenti saman í búningsklefa United

Bruno Fernandes og Erik ten Hag á hliðarlínunni gegn Brighton.
Bruno Fernandes og Erik ten Hag á hliðarlínunni gegn Brighton. AFP/Oli Scarff

Fjórum leikmönnum enska knattspyrnufélagsins Manchester United lenti saman inn í búningsklefa liðsins eftir tapið gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á laugardaginn síðasta.

Það er The Sun sem greinir frá þessu en leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Bruno Fernandes, Scott McTominay, Lisandro Martínez og Victor Lindelöf.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri liðsins, reyndi að stilla til friðar í búningsklefanum en Fernandes var ósáttur með frammistöðu McTominay á miðjunni í leiknum og þá var Martínez ósáttur með varnarvinnu Lindelöf en þeir léku saman í hjarta varnarinnar gegn Brighton.

Í vandræðum utan vallar

Það hefur gustað ansi hressilega um Manchester United að undanförnu en Antony fær ekki að æfa með félaginu þar sem hann er til rannsóknar hjá lögreglunni í Sao Paulo í Brasilíu fyrir líkamlegt og andlegt ofbeldi í garð fyrrverandi unnustu sinnar.

Þá hefur Jadon Sancho æft einn síðustu daga eftir að hann gagnrýndi ten Hag opinberlega eftir tapið gegn Arsenal í byrjun septembermánaðar.

United hefur aðeins unnið tvo leiki það sem af er tímabili og er með 6 stig í þrettánda sæti deildarinnar.

mbl.is