Missir af fyrsta leik í Meistaradeildinni

Stumrað yfir Gabriel Martinelli í leiknum gegn Everton á sunnudaginn.
Stumrað yfir Gabriel Martinelli í leiknum gegn Everton á sunnudaginn. AFP/Paul Ellis

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Gabriel Martinelli verður ekki með enska liðinu Arsenal í fyrsta leik þess í riðlakeppni Meistaradeildarinnar annað kvöld.

Martinelli meiddist um miðjan fyrri hálfleik í viðureign Arsenal og Everton á Goodison Park á sunnudaginn og Mikel Arteta staðfesti á fréttamannafundi í dag að hann yrði ekki orðin leikfær þegar Arsenal mætir PSV Eindhoven á morgun. Liðin mætast þá í London en hin tvö liðin í riðlinum eru Sevilla og Lens.

Martinelli, sem er 22 ára  gamall framherji, skoraði 15 mörk fyrir Arsenal í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Hann hefur ekki náð að skora í fyrstu fimm umferðunum í ár en mark var dæmt af honum á sunnudaginn, rétt áður en hann meiddist.

mbl.is