Ráku 74 ára gamalmennið úr starfi

Neil Warnock verður 75 ára gamall á árinu.
Neil Warnock verður 75 ára gamall á árinu. AFP

Neil Warnock hefur verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóra enska B-deildarfélagsins Huddersfield en hann verður 75 ára gamall í desember.

Warnock, sem hefur nokkrum sinnum gefið það út að hann sé hættur þjálfun, tók við Huddersfield í febrúar á þessu ári þegar liðið var í harðri fallbaráttu.

Hann bjargaði félaginu frá falli síðasta vor og skrifaði svo undir eins árs samning við félagið í sumar en Huddersfield hefur ekki gengið sem skyldi í B-deildinni á tímabilinu.

Huddersfield er með 7 stig í 17. sæti B-deildarinnar, þremur stigum frá fallsæti, eftir fyrstu sex umferðirnar en Warnock mun stýra liðinu um helgina gegn Stoke í Huddersfield, og láta svo af störfum að leik loknum.

Óvíst er hvað tekur við hjá Warnock en hann hefur sjálfur gefið það út að hann sé tilbúinn að þjálfa áfram ef rétta starfið býðst.

mbl.is