Stuðningsmaður Newcastle stunginn

AC Milan og Newcastle United mætast í Meistaradeildinni í kvöld.
AC Milan og Newcastle United mætast í Meistaradeildinni í kvöld. AFP/Gabriel Bouys

Ráðist var á stuðningsmann enska knattspyrnufélagsin Newcastle United og hann stunginn í miðbæ Mílanó í gærkvöldi. Líðan stuðningsmannsins, sem heitir Eddie McKay, er stöðug.

AC Milan og Newcastle mætast í fyrstu umferð Meistaradeild Evrópu í dag og hugðist McKay styðja við bakið á liði sínu ásamt syni sínum á leiknum, sem fer fram á San Siro-vellinum í Mílanó.

Sjö eða átta karlmenn réðust á McKay um miðnætti í gær og var hann stunginn af einum þeirra í bakið, auk þess sem hann hlaut stungusár í báða handleggi.

McKay, sem er 58 ára gamall, var fluttur á sjúkrahús í borginni og er líðan hans stöðug.

Í yfirlýsingu lýsti Newcastle yfir miklum áhyggjum vegna stunguárásarinnar og óskaði McKay skjóts og fulls bata.

mbl.is