Þarf að venjast VAR

Vincent Kompany svekktur í gærkvöldi.
Vincent Kompany svekktur í gærkvöldi. AFP/Darren Staples

Vincent Kompany, knattspyrnustjóri Burnley, kveðst þurfa að venjast notkun VAR í ensku úrvalsdeildinni þar sem tæknin var ekki notuð í ensku B-deildinni, sem Burnley vann á síðasta tímabili.

Mark var dæmt af Burnley í stöðunni 1:1 í leik liðsins gegn Nottingham Forest í gærkvöldi. Eftir athugun VAR var dæmd hendi á Sander Berge í aðdraganda marks Lyles Fosters seint í leiknum, sem var ansi harður dómur.

„Ég verð að venjast þessu. Ef maður skorar mark í B-deildinni er það mark. Ég er með ágætis heila þegar kemur að viðskiptum og þjálfun en þegar kemur að lögum og reglum slekk ég á mér.

Hendi á þennan veg eða annan, þeir koma til okkar og útskýra það en ég hef tekið þá ákvörðun að treysta því sem þeir eru að gera og að þeir nálgist þetta af heilindum.

Þetta er ekki eitthvað sem ég vil ræða of mikið, ég get ekki breytt þessu núna,“ sagði Kompany í samtali við BBC Sport eftir leik.

mbl.is