Tryggðu sér kauprétt á Kane

Harry Kane fer vel af stað með Bayern.
Harry Kane fer vel af stað með Bayern. AFP/Christof Stache

Tottenham Hotspur tryggði sér kauprétt á Harry Kane, fyrirliða enska landsliðsins í knattspyrnu, þegar félagið seldi hann til Þýskalandsmeistara Bayern München síðsumars.

Þetta sagði Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, þegar hann ræddi við stuðningsfólk félagsins í fyrsta skipti í mörg ár.

Levy var spurður um samninginn vegna Kane og hvort mögulegt væri að hann sneri aftur til félagsins, og þá staðfesti hann að gengið hefði  verið frá því að Tottenham hefði rétt á að fá hann aftur samkvæmt vissum skilyrðum.

Kane samdi við Bayern til fjögurra ára og hefur farið vel af stað en hann hefur gert fjögur mörk í fjórum fyrstu leikjum sínum í þýsku 1. deildinni.

Hann var hjá Tottenham í 19 ár, eða frá ellefu ára aldri og þar til hann var seldur til Bayern fyrir 86 milljónir punda um miðjan ágúst.

mbl.is