Norski knattspyrnuþjálfarinn Ole Gunnar Solskjær segir það hafa verið mistök hjá Manchester United að semja við Cristiano Ronaldo þegar Norðmaðurinn var við stjórnvölinn.
Ronaldo samdi við Man. United að nýju á lokadegi félagaskiptagluggans á Englandi sumarið 2021 eftir að grannarnir og erkifjendurnir í Manchester City höfðu komist nálægt því að semja við hann.
„Þetta var ákvörðun sem var mjög erfitt að taka ekki og mér fannst við verða að taka sénsinn, en hún reyndist röng.
Okkur leið sem þetta væri rétt ákvörðun þegar við sömdum við hann, og þannig leið stuðningsmönnunum líka í Newcastle-leiknum, þar sem Old Trafford logaði,“ sagði Solskjær í samtali við The Athletic.
Ronaldo skoraði tvö mörk í endurkomunni þegar Man. United lagði Newcastle örugglega að velli, 4:1, í ensku úrvalsdeildinni. Áfram hélt Portúgalinn að skora en liðinu fór að ganga illa, sem endaði með brottrekstri Solskjærs.
„Hann var auðvitað einn besti markaskorari heims og virtist sterkur. En þegar þú ert með hóp verða allir að róa í sömu átt.
Þegar hlutirnir fóru að ganga illa mátti sjá ákveðna leikmenn og stór egó koma upp á yfirborðið,“ bætti Solskjær við.