Enski knattspyrnumaðurinn Jesse Lingard hefur beðist formlega afsökunar á því að hafa ekið Lamborghini-bifreið sinni undir áhrifum áfengis.
Lögregla stöðvaði Lingard í Manchester-borg þann 8. júlí síðastliðinn. Var hann látinn anda í áfengismæli þar sem kom í ljós að hann var töluvert yfir leyfilegum áfengismörkum til þess að keyra bíl.
Lingard, sem er án félags sem stendur, var sektaður um 57.000 pund, sem nemur um 9,5 milljónum íslenskra króna.
Í yfirlýsingu baðst hann formlega afsökunar á gjörðum sínum:
„Ég vil gangast við því að ég gerði mistök og biðst opinberlega afsökuna á óásættanlegu framferði mínu. Ég skil fullkomlega og samþykki afleiðingar mistaka minna sem fólu í sér að setja mannslíf í hættu.
Ég bið alla aðdáendur mína og alla þá sem hafa fylgt mér og stutt við bakið á mér í gegnum ferilinn afsökunar. Ég samþykki úrskurð dómsins og greiðslu sektarinnar.“