Norski töframaðurinn framlengdi

Martin Ödegaard verður hjá Arsenal lengi enn.
Martin Ödegaard verður hjá Arsenal lengi enn. AFP/Adrian Dennis

Norski knattspyrnumaðurinn Martin Ödegaard, fyrirliði Arsenal, er búinn að skrifa undir nýjan fimm ára samning við félagið.

The Athletic greinir frá því að Ödegaard hafi skrifað undir samninginn fyrir þremur vikum síðan og er Norðmaðurinn nú samningsbundinn Skyttunum til sumarsins 2028.

Ödegaard, sem er þekktur fyrir fimi sína með boltann, er 24 ára gamall og hefur verið á mála hjá Arsenal frá því í janúar árið 2021, þegar hann kom að láni frá Real Madríd.

Arsenal festi svo kaup á honum sumarið sama ár og var hann skipaður fyrirliði fyrir síðasta tímabil.

Alls hefur hann leikið 112 leiki fyrir Skytturnar í öllum keppnum og skorað í þeim 27 mörk.

mbl.is
Loka