Fimmti sigur Liverpool í röð

Mo Salah stingur sér á milli tveggja leikmanna West Ham …
Mo Salah stingur sér á milli tveggja leikmanna West Ham í dag. AFP/Paul Ellis

Liverpool vann sinn fimmta sigur í röð í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er liðið lagði West Ham á heimavelli, 3:1, í dag.

Var staðan sanngjarnt 1:1 eftir mjög jafnan og skemmtilegan fyrri hálfleik. West Ham byrjaði betur og fékk nokkur góð færi til að komast yfir í upphafi leiks.

Liverpool skoraði hins vegar fyrsta markið á 16. mínútu þegar Mo Salah náði í víti sem hann síðan skoraði sjálfur úr. Var staðan 1:0 fram að 42. mínútu er Jarrod Bowen jafnaði með glæsilegum skalla í stöngina og inn.

Liverpool var mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik og Darwin Núnez breytti stöðunni í 2:1 á 60. mínútu með fallegri afgreiðslu eftir sendingu frá Alexis Mac Allister. Skömmu áður hafði Núnez farið illa með algjört dauðafæri.

Heimamenn voru áfram sterkari og varamaðurinn Digo Jota innsiglaði sigurinn á 85. mínútu með skoti af stuttu færi eftir skalla frá Virgil van Dijk.

Liverpool er í öðru sæti með 16 stig og West Ham í sjöunda sæti með tíu.

Liverpool 3:1 West Ham opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma í seinni hálfleik.
mbl.is