Forráðamenn United búnir að gefast upp?

André Onana hefur ekki verið sannfærandi í fyrstu leikjum sínum …
André Onana hefur ekki verið sannfærandi í fyrstu leikjum sínum með United. AFP/Paul Ellis

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United eru sagðir fylgjast með slóvenska markverðinum Jan Oblak. 

Það er spænski miðillinn Fichajes sem greinir frá þessu en Oblak, sem er þrítugur, er samningsbundinn Atlético Madrid á Spáni.

André Onana gekk til liðs við United frá Inter Mílanó í sumar fyrir tæplega 44 milljónir punda en hann hefur ekki heillað í fyrstu leikjum tímabilsins og gerst sekur um slæm mistök.

Oblak hefur verið á meðal bestu markvarða heims undanfarinn áratug en hann hefur leikið með Atlético frá árinu 2014 og kostar í kringum 50 milljónir punda.

United hefur ekki verið neitt allt of sannfærandi í fyrstu leikjum tímabilsins og er með níu stig í 9. sæti deildarinnar eftir fyrstu sex umferðirnar.

mbl.is