Liverpool tilbúið að selja Spánverjann?

Samningur Thiago á Anfield rennur út næsta sumar.
Samningur Thiago á Anfield rennur út næsta sumar. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Thiago gæti verið á förum frá enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool þegar janúarglugginn verður opnaður.

Það er Football Insider sem greinir frá þessu en Thiago, sem er 32 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool frá Bayern München sumarið 2020 fyrir 20 milljónir punda. Hann er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2024.

Alls á hann að baki 97 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 3 mörk og lagt upp önnur sex.

Hann hefur verið mikið meiddur síðan hann skrifaði undir á Anfield og er sem stendur að jafna sig á meiðslum á mjöðm sem hafa haldið honum frá keppni frá því í apríl á þessu ári.

Thiago hefur meðal annars verið orðaður við félög í Sádi-Arabíu en Liverpool hefur farið vel af stað á tímabilinu og er með 16 stig í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum minna en topplið Manchester City.

mbl.is