Mikið og kostnaðarsamt tjón á Grindavíkurvelli

Brynjar Björn Gunnarsson þjálfar Grindavík.
Brynjar Björn Gunnarsson þjálfar Grindavík. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Miklar skemmdir voru unnar á áhorfendastúkunni á Grindavíkurvelli, þar sem knattspyrnulið bæjarins leika heimaleiki sína.

Knattspyrnudeild Grindavíkur greindi frá og birti mynd af skemmdunum, en búið var að eyðileggja um tíu sæti í stúkunni.

„Þetta er einhver hópur af krökkum eða unglingum sem er að hanga hérna í stúkunni. Sum af þessum sætum voru léleg og hálf brotin, en það er búið að taka cirka tíu sæti sem ekkert var að og mölbrjóta þau, ásamt því að taka ónýtu sætin og brjóta þau algjörlega.

Við viljum komast til botns í þessu máli og finna þá sem eru ábyrgir fyrir þessari eyðileggingu,“ var haft eftir Orra Frey Hjaltalín, vallarstjóra og fyrrverandi leikmanni liðsins í yfirlýsingu félagsins.

„Ljóst er að tjónið er mikið og kostnaðarsamt,“ sagði einnig í yfirlýsingunni.

mbl.is