Áfall fyrir Newcastle

Harvey Barnes svekktur eftir að hafa meiðst á sunnudag.
Harvey Barnes svekktur eftir að hafa meiðst á sunnudag. AFP/Darren Staples

Enski knattspyrnumaðurinn Harvey Barnes, vængmaður Newcastle United, meiddist illa á fæti þegar liðið gjörsigraði Sheffield United 8:0 í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

Barnes var í byrjunarliði Newcastle en fór af velli eftir aðeins tólf mínútna leik er staðan var enn markalaus.

„Þetta er meiðsli á þeim hluta fótarins sem er rétt við tána. Ég held að þetta séu mjög alvarleg meiðsli.

Hann er búinn að fara í röntgenmyndatöku og við bíðum nú eftir áliti sérfræðings um hvað er næsta skref, hvort hann þurfi að gangast undir skurðaðgerð eður ei.

Ég vil ekki setja neinn ákveðinn tímaramma þar til við fáum staðfestingu frá sérfræðingnum en ég tel að hann verði frá í nokkra mánuði frekar en nokkrar vikur,“ sagði Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle, á blaðamannafundi í morgun.

mbl.is