Fær ekki að koma nálægt aðalliðinu

Jadon Sancho.
Jadon Sancho. AFP/Leonardo Munoz

Enski knattspyrnumaðurinn Jadon Sancho, leikmaður Manchester United, hefur verið gerður útlægur frá allri aðstöðu aðalliðsins þar sem knattspyrnustjórinn Erik ten Hag hefur sett honum afarkosti.

Mirror greinir frá því að ten Hag krefjist þess að Sancho biðjist afsökunar á því að hafa gagnrýnt hollenska stjórann í færslu sem leikmaðurinn birti á samfélagsmiðlum.

Ten Hag hafði skýrt frá því að Sancho hafi ekki verið valinn í leikmannahóp liðsins fyrir leik Man. United gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni vegna þess að hann hefði ekki æft nægilega vel í aðdraganda leiksins.

Sancho var ekki ánægður með þær skýringar og kvaðst í færslu sinni vera þreyttur á því að vera gerður að blóraböggli. Hann hefur síðan eytt færslunni og eyddi nýverið Instagram-aðgangi sínum en hefur ekki viljað biðja ten Hag afsökunar.

Á meðan svo er fær Sancho ekki að koma í matsal aðalliðsins, æfingaaðstöðuna eða neitt annað sem tilheyrir aðstöðu liðsins.

Sancho er sagður hafa mætt seint á æfingar oftar en einu sinni áður en hann og ten Hag hófu að deila opinberlega.

Man. United íhugar nú að selja Sancho, sem var keyptur á 73 milljónir punda frá Borussia Dortmund sumarið 2021, á mun lægri upphæð í janúar.

mbl.is
Loka