„Þessi dómari er fullkominn skíthæll!“

Jermaine Jenas í baráttu við Cesc Fabregas í leik Tottenham …
Jermaine Jenas í baráttu við Cesc Fabregas í leik Tottenham og Arsenal fyrir rúmum áratug. Reuters/Eddie Keogh

Jermaine Jenas, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi sparkspekingur hjá BBC Sport og TNT Sport, hefur beðist afsökunar eftir að hafa hraunað yfir Rob Jones, dómara leiks Arsenal og Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

Jenas, sem var lengi vel á mála hjá Tottenham, lét Jones heyra það á X-aðgangi sínum þegar dómarinn dæmdi vítaspyrnu á Cristian Romero eftir að Argentínumaðurinn handlék knöttinn innan vítateigs.

„Þessi dómari er fullkominn skíthæll! Þeir eru allir að eyðileggja leikinn okkar!“ skrifaði Jenas og var greinilega heitt í hamsi.

Í gær baðst hann svo afsökunar á ummælum sínum.

„Ég viðurkenni mistök, ég hljóp á mig í gær. Ég ætti að vita það betur en flestir að ummælum sem við sem stuðningsmenn, leikmenn og sérfræðingar látum falla fylgja ábyrgð enda er þetta málefni sem ég hef látið mig varða.

Tilfinningarnar hlupu með mig í gönur og ég bið enska knattspyrnusambandið og alla dómara afsökunar,“ skrifaði Jenas á X.

mbl.is