Hef ekki náð því besta út úr honum

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP/Oli Scarff

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, viðurkennir að hafa ekki enn náð því besta út úr enska landsliðsmanninum Kalvin Phillips eftir að hann var keyptur frá Leeds United sumarið 2022.

Phillips hefur verið í algjöru aukahlutverki frá því hann kom frá uppeldisfélaginu og er hægt að telja fjölda byrjunarliðsleikja miðjumannsins fyrir þreföldu meistarana á fingrum annarrar handar.

„Marcelo [Bielsa]  gaf Kalvin bestu útgáfuna af Kalvin á ferli hans. Ég hefði elskað að vera fær um að gera með Kalvin það sem Marcelo áorkaði með honum,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í gær.

Phillips, sem er 27 ára gamall, byrjar aðeins sinn fimmta leik fyrir Man. City á ferli sínum til þessa þegar liðið heimsækir Newcastle United í enska deildabikarnum í kvöld.

„Við erum með okkar eigin leikstíl og hann á stundum í erfiðleikum með nokkra hluti á meðan fyrri leikstíllinn [hjá Leeds] hentaði honum fullkomlega,“ bætti spænski stjórinn við.

Reiknað er með því að Phillips fái kærkomin tækifæri til þess að sanna sig í næstu leikjum Man. City þar sem spænski varnartengiliðurinn Rodri mun á næstunni taka út þriggja leikja bann eftir að hafa fengið beint rautt spjald í leik gegn Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

mbl.is