Leikmaður United yfirheyrður af lögreglu

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, og Antony.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, og Antony. AFP/Darren Staples

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Antony, leikmaður Manchester United, er kominn aftur til Manchester-borgar þar sem hann mun svara spurningum lögreglu um alvarlegar ásakanir um ofbeldi á hendur honum.

BBC Sport greinir frá því að Antony sé fús til þess að svara spurningum lögreglu og hyggist afhenda henni síma sinn til að aðstoða við rannsóknina.

Fyrrverandi kærasta hans Gabriela Cavallin, sakaði Antony um líkamlegt og andlegt ofbeldi í samtali við brasilíska miðilinn UOL.

Í kjölfarið stigu tvær konur til viðbótar fram, Rayssa de Freitas og Ingrid Lana, og sökuðu Antony sömuleiðis um ofbeldi í sinn garð.

Antony er í leyfi á fullum launum hjá Man. United og hafði dvalið í Brasilíu undanfarnar vikur áður en hann flaug aftur til Manchester í vikunni.

mbl.is