Áfall fyrir Chelsea

Ben Chilwell er að glíma við meiðsli aftan í læri.
Ben Chilwell er að glíma við meiðsli aftan í læri. AFP/Justin Tallis

Knattspyrnumaðurinn Ben Chilwell, varafyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, er að glíma við meiðsli aftan í læri.

Þetta tilkynnti Mauricio Pochettino, stjóri Chelsea, eftir sigur liðsins gegn Brighton í 3. umferð enska deildabikarsins á Stamford Bridge í gær.

Chilwell, sem er 26 ára gamall, hefur verið tæpur vegna meiðsla á tímabilinu en hefur þrátt fyrir það byrjað fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur lagt upp eitt mark.

Pochettino greindi frá því að meiðslin hefðu ágerst í leiknum í gær, þar sem hann var tekinn af velli undir restina, og þarf hann því að hvíla næstu vikurnar.

Chelsea hefur ekki farið vel af stað á tímabilinu og hefur aðeins unnið einn leik í deildinni til þessa en liðið er með 5 stig í 14. sætinu.

mbl.is