Hjörtu níu Liverpool-manna kramin

Jürgen Klopp ósáttur á hliðarlínunni.
Jürgen Klopp ósáttur á hliðarlínunni. AFP/Henry Nicholls

Tottenham vann Liverpool, 2:1, í mögnuðum leik í sjöundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á Tottenham-vellinum í dag. 

Sigurmark Tottenham kom á sjöttu mínútu uppbótartímans þegar að Joel Matip setti boltann í eigið net eftir að Liverpool hafði fengið tvö rauð spjöld. 

Tottenham er nú í öðru sæti deildarinnar með 17 stig, jafnmörg og grannarnir í Arsenal. Liverpool er fjórða með 15. 

Liðin sóttu vel til að byrja með og var jafn­ræði á milli þeirra. Á 24. mín­útu fór Curt­is Jo­nes í hættu­lega tæk­lingu á Yves Bis­souma og steig á hann. Upp­runa­lega fékk Jo­nes gult spjald en dóm­ar­inn var kallaður í VAR-skjá­inn þar sem hann breytti um lit á spjal­dinu og henti Jo­nes í sturtu. 

Li­verpool tókst þó að setja bolt­ann í netið stuttu seinna en þar var Luis Díaz að verki. Var hann síðar flaggaður rang­stæður og eft­ir stutta skoðun hjá mynd­bands­dómur­un­um stóð sá dóm­ur og staðan enn 0:0. Luis Díaz virt­ist þó vera vel rétt­stæður.

Fyr­irliði Totten­ham Son Heung-min kom síðan heima­mönn­um yfir á 36. mín­útu með frá­bæru marki eft­ir gott sam­spil á milli James Madd­i­son og Richarlison. Son fékk bolt­ann frá Bras­il­íu­mann­in­um og potaði hon­um í netið. 1:0. 

Li­verpool jafnaði þó rétt fyr­ir lok fyrri hálfleiks­ins en þá fékk Hol­lend­ing­ur­inn Cody Gakpo bolt­ann á miðjum teign­um, tók hann niður, snéri sér við og hamraði hon­um í netið, 1:1, og allt jafnt í hálfleik.  

Enn furðulegri varð leik­ur­inn í síðari hálfleik en um miðjan hálfleik­inn fékk Di­ogo Jota sitt annað gula spjald og var rek­inn af velli og Li­verpool-menn orðnir níu síðustu 20 mín­út­urn­ar. 

Tottenham átti samt í erfiðleikum með að sækja og það var ekki fyrr en á sjöttu mínútu uppbótartímans sem sigurmarkið kom. Þá sendi Pedro Porro boltann fast fyrir markið þar sem Joel Matip negldi honum í sitt eigið bláhorn og skoraði sjálfsmark, sem reyndist sigurmark Tottenham-manna. 

Tottenham mætir Luton á útivelli í næsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni en Liverpool mætir Brighton, einnig á útivelli. 

Dominik Szoboszlai og Micky van de Ven kljást í dag.
Dominik Szoboszlai og Micky van de Ven kljást í dag. AFP/Henry Nicholls
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Tottenham 2:1 Liverpool opna loka
90. mín. Leik lokið Þvílíkt og annað eins. Tottenham vinnur hér hádramatískan sigur í mögnuðum leik þar sem Liverpool fékk tvö rauð spjald.
mbl.is