Tottenham vann Liverpool, 2:1, í mögnuðum leik í sjöundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á Tottenham-vellinum í dag.
Sigurmark Tottenham kom á sjöttu mínútu uppbótartímans þegar að Joel Matip setti boltann í eigið net eftir að Liverpool hafði fengið tvö rauð spjöld.
Tottenham er nú í öðru sæti deildarinnar með 17 stig, jafnmörg og grannarnir í Arsenal. Liverpool er fjórða með 15.
Liðin sóttu vel til að byrja með og var jafnræði á milli þeirra. Á 24. mínútu fór Curtis Jones í hættulega tæklingu á Yves Bissouma og steig á hann. Upprunalega fékk Jones gult spjald en dómarinn var kallaður í VAR-skjáinn þar sem hann breytti um lit á spjaldinu og henti Jones í sturtu.
Liverpool tókst þó að setja boltann í netið stuttu seinna en þar var Luis Díaz að verki. Var hann síðar flaggaður rangstæður og eftir stutta skoðun hjá myndbandsdómurunum stóð sá dómur og staðan enn 0:0. Luis Díaz virtist þó vera vel réttstæður.
Fyrirliði Tottenham Son Heung-min kom síðan heimamönnum yfir á 36. mínútu með frábæru marki eftir gott samspil á milli James Maddison og Richarlison. Son fékk boltann frá Brasilíumanninum og potaði honum í netið. 1:0.
Liverpool jafnaði þó rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins en þá fékk Hollendingurinn Cody Gakpo boltann á miðjum teignum, tók hann niður, snéri sér við og hamraði honum í netið, 1:1, og allt jafnt í hálfleik.
Enn furðulegri varð leikurinn í síðari hálfleik en um miðjan hálfleikinn fékk Diogo Jota sitt annað gula spjald og var rekinn af velli og Liverpool-menn orðnir níu síðustu 20 mínúturnar.
Tottenham átti samt í erfiðleikum með að sækja og það var ekki fyrr en á sjöttu mínútu uppbótartímans sem sigurmarkið kom. Þá sendi Pedro Porro boltann fast fyrir markið þar sem Joel Matip negldi honum í sitt eigið bláhorn og skoraði sjálfsmark, sem reyndist sigurmark Tottenham-manna.
Tottenham mætir Luton á útivelli í næsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni en Liverpool mætir Brighton, einnig á útivelli.