Knattspyrnufélagið Liverpool hefur gefið frá sér yfirlýsingu eftir hrikaleg mistök dómara í tapi liðsins fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeild karla í gær.
Vann Tottenham leikinn 2:1 en Liverpool fékk tvö umdeild rauð spjöld í leiknum. Versta atvikið átti sér þó stað í stöðunni 0:0 en þá skoraði Kólumbíumaðurinn Luís Díaz en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Var um rangan dóm að ræða, en þrátt fyrir myndbandsdómgæslu var hann ekki leiðréttur.
Í yfirlýsingu sem dómarasamtökin gáfu út voru mistökin viðurkennd og samtökin segjast ætla að fara vel yfir málið og sjá hvað orsakaði mistökin.
Í kvöld gaf Liverpool frá sér sína eigin yfirlýsingu þar sem félagið skoðar alla valkosti sem í boði eru.
„Við skiljum fullkomlega það álag sem dómarar vinna undir en það á að draga úr þessum þrýstingi, ekki auka hann, með tilvist VAR. Það er því ófullnægjandi að ekki hafi gefist nægur tími til að leiðrétta ákvörðunina.
Óviðunandi er að kalla þessi mistök „mannleg“ þar sem allar niðurstöður ættu að koma fram með fullu gagnsæi.
Þetta er mikilvægt fyrir framtíðarákvarðaranatöku þar sem þetta á við öll félög deildarinnar,“ sagði Liverpool meðal annars í yfirlýsingu.