Leikmaður Tottenham varð fyrir kynþáttaníði

Dejan Kulusevski og Destiny Udogie fagna.
Dejan Kulusevski og Destiny Udogie fagna. AFP/Justin Tallis

Destiny Udogie, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham, hefur fengið fjölda rasískra skilaboða eftir stórleik liðsins gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í Lundúnum á laugardaginn.

Udogie, sem er tvítugur, lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar hjá Tottenham en á 68. mínútu fékk Diogo Jota, leikmaður Liverpool, að líta gula spjaldið fyrir brot á bakverðinum.

Stuðningsmenn Liverpool voru mjög ósáttir með spjaldið þar sem leikmaðurinn virtist fella sjálfan sig og þá kölluðu margir eftir því að Uodgie fengi sjálfur gult spjald fyrir að biðja um spjald á Jota.

„Við erum með óbragð í munninum eftir fjölda rasískra skilaboða sem Destiny Udogie hefur fengið á samfélagsmiðlum eftir leikinn gegn Liverpool,“ segir í tilkynningu Tottenham.

„Við munum leggja allt kapp á að finna þá sem bera ábyrgð á skilaboðunum og að þeir verði látnir svara til saka,“ segir meðal annars í tilkynningu Tottenham.

mbl.is
Loka