Neville lætur forráðamenn Liverpool heyra það

Virgil van Dijk var vonsvikinn eftir leikinn um helgina.
Virgil van Dijk var vonsvikinn eftir leikinn um helgina. AFP/Henry Nicholls

Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United og sparkspekingur hjá Sky Sports, skaut föstum skotum að forráðamönnum Liverpool á samfélagsmiðlinum X í gær.

Liverpool sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna dómaramistakanna sem áttu sér stað í leik liðsins gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í Lundúnum á laugardaginn.

Í yfirlýsingunni kom meðal annars fram að Liverpool ætli sér að taka málið lengra þar til almenn sátt náist um málið.

Stór mistök hjá Liverpool

„Félagið gerði stór mistök með því að senda þessa yfirlýsingu frá sér,“ skrifaði Neville á X.

„Þeir tala um að taka málið lengra (hvað þýðir það eiginlega) og að hálfpartinn vefengja heilindi dómaranna getur verið bæði hættulegt og aukið á fordóma gagnvart stéttinni í heild sinni.

Dómarasamtökin báðust afsökunar og Liverpool átti að taka þeirri afsökunarbeiðni og láta málið kyrrt liggja,“ bætti Neville meðal annars við.

mbl.is
Loka