Af hverju er ekki búið að birta hljóðupptökuna?

Jamie Carragher áttar sig ekki á hvers vegna ekki er …
Jamie Carragher áttar sig ekki á hvers vegna ekki er búið að birta hljóðupptökuna með samskiptum dómara og VAR-dómara. AFP/Henry Nicholls

Jamie Carragher, sparkspekingur hjá Sky Sports og fyrrverandi knattspyrnumaður hjá Liverpool, segir það líta illa út fyrir samtök atvinnudómara á Englandi, PGMOL, að hafa ekki enn birt hljóðupptöku úr leik Tottenham Hotspur og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á laugardag.

Í leiknum dæmdi VAR-dómarinn Darren England mark ranglega af Liverpool vegna rangstöðu. Luis Díaz skoraði markið og hefði komið Liverpool í 0:1, en leiknum lauk með 2:1-sigri Tottenham.

„Það hefur verið rætt um að þeir hafi ekki vitað að mistök hafi verið gerð þar til í hálfleik. Þegar boltinn fór út af stuttu eftir þetta er dómarinn með þannig svip að það lítur út fyrir að hann átti sig á eitthvað hafi farið úrskeiðis.

Þegar við ræðum um þær upplýsingar sem við erum með frá heimildamönnum okkar finnst mér það ótrúlegt að allir sem eiga hlut að máli hafi ekki birt hljóðupptökuna, mér finnst það óskiljanlegt,“ sagði Carragher í sjónvarpsþættinum Monday Night Football í gærkvöldi.

Útskýringin stórfurðuleg

Gaf hann auk þess lítið fyrir skýringar dómarasamtakanna á þeim mistökum sem voru gerð er markið var dæmt af og að því lengri tími sem líður þar til að hljóðupptaka, þar sem heyra má hvað fór fram milli VAR-dómara og dómara leiksins, er birt því líklegra sé að fólki finnist sem samtökin séu að reyna að láta þau líta sem best út.

„Eina leiðin fyrir Howard Webb og PGMOL til þess að öðlast einhvers konar trúverðugleika að nýju hefði verið að koma upptökunni út. Þá myndum við öll segja að þetta hafi verið mistök og að við höfum öll gert slík.

Vandamálið núna er að útskýringin er svo handahófskennd og stórfurðuleg að fleira og fleira fólk mun halda að samtökin séu að reyna að skálda einhvers konar sögu,“ sagði Carragher.

mbl.is