Liverpool sektað

Simon Hooper dómari var gjarn á að gefa leikmönnum Liverpool …
Simon Hooper dómari var gjarn á að gefa leikmönnum Liverpool spjöld á laugardag. AFP/Henry Nicholls

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur verið sektað af enska knattspyrnusambandinu eftir að leikmenn og starfslið karlaliðsins fékk fjölda gulra spjalda og tvö rauð spjöld í 2:1-tapi fyrir Tottenham Hotspur á laugardag.

Alls fengu leikmenn sex gul spjöld og þar af fékk Diogo Jota tvö og þar með rautt, auk þess sem Curtis Jones fékk beint rautt spjald.

Peter Krawietz í þjálfarateymi Liverpool fékk sömuleiðis gult spjald.

Samkvæmt reglum enska knattspyrnusambandsins þýða þetta mörg spjöld hjá einu liði í einum leik sjálfkrafa sekt upp á 25.000 pund, tæplega 4,3 milljónir íslenskra króna, og því var ekki þörf á neinum formlegum úrskurði frá sambandinu.

Enska sambandið á enn eftir að taka ákvörðun um hvort fleiri leikmönnum Liverpool verður refsað, til að mynda fyrir ummæli eftir leikinn.

mbl.is
Loka