Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, kveðst finna til með Liverpool og styður félagið í að bregðast við eftir að fullkomlega löglegt mark var dæmt af liðinu í 2:1-tapi fyrir Tottenham Hotspur á laugardag.
Eftir inngrip VAR var ákveðið að dæma ekki mark þrátt fyrir að Luis Díaz, sem skoraði markið, hafi verið langt frá því að vera rangstæður. Hefði hann komið Liverpool í 0:1 í fyrri hálfleik.
Samtök atvinnudómara á Englandi, PGMOL, viðurkenndu mistök strax í leikslok og gaf Liverpool í kjölfarið út yfirlýsingu þar sem farið var fram á rannsókn á starfsháttum VAR-dómara, auk þess sem félagið áskildi sér rétt til þess að leita allra mögulegra leiða til að bregðast við og kalla eftir svörum.
Á blaðamannafundi í gær var Arteta spurður hvort hann finndi til með Liverpool.
„Svo sannarlega. Þegar allt kemur til alls viltu fá það sem þú átt skilið. Maður vill halda mistökum, sem maður getur ekki haft stjórn á utan þeirrar vinnu sem maður leggur á sig á hverjum degi, í lágmarki.
Það eru allir að gera sitt besta til þess að halda leiknum hreinum og heiðvirðum en þegar á hólminn er komið þarf að vinna fyrir réttinum til þess að vinna leiki undir þeim aðstæðum sem regluverkið leyfir.
Þegar það gerist ekki er það ótrúlega pirrandi og svekkjandi,“ sagði spænski stjórinn.