Brasilíski knattspyrnumaðurinn Roberto Firmino mun á næstu dögum gefa út bókina Sí Señor: My Liverpool years. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar bókin um tíma hans hjá enska knattspyrnufélaginu Liverpool, þar sem hann var afar vinsæll.
Í einum kafla bókarinnar fer hann yfir samband Mo Salah og Sadio Mané, en þeir þrír mynduðu glæsilegt sóknarteymi Liverpool í áraraðir. Ekki var þó alltaf allt með felldu hjá þríeykinu.
„Ég veit ekki hvort hann áttaði sig á því, en Salah pirraði alla hjá Liverpool þegar hann sendi ekki boltann. Ég réð betur við það en flestir, en Salah átti það til að vera gráðugur í staðinn fyrir að gefa á samherja í betri stöðu.
Salah og Mané voru aldrei bestu vinir. Þeir töluðu lítið saman. Kannski var það vegna rígsins á milli Egyptalands og Senegals á Afríkumótinu. Ég veit það ekki. Þeir voru samt algjörir fagmenn og þeir elskuðu mig, því ég gaf á þá báða,“ skrifaði Firmino m.a.