Stigafrádráttur Everton ræddur á þingi

Everton er í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir stigafrádráttinn.
Everton er í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir stigafrádráttinn. AFP/Peter Powell

Ákvörðun ensku úrvalsdeildarinnar um að draga tíu stig af karlaliði Everton verður rædd á breska þinginu.

Ian Byrne, þingmaður á breska þinginu fyrir hönd Liverpool, hefur lagt til umræðu í fulltrúadeild þingsins á morgun þar sem honum þykir ákvörðun úrvalsdeildarinnar afar ósanngjörn.

Óháð nefnd komst að þeirri niðurstöðu að Everton hafi brotið gegn reglum úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri eftir að deildin sjálf hafði lagt til að tólf stig yrðu dregin af liðinu.

Byrne þykir skjóta skökku við að úrvalsdeildin sjái sjálf um að leggja til refsingar og vill að komið verði á fót óháðum eftirlitsaðila, sem enska úrvalsdeildin vill alls ekki að verði að veruleika.

mbl.is