Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst vilja sjá England í efsta sætinu á heimslista FIFA.
Þar hafa Englendingar aldrei verið en þeir eru nú í fjórða sæti og hafa best komist í þriðja sætið á listanum, haustið 2012 og aftur haustið 2021.
Spurður á fréttamannafundi í Skopje hvort það væri markmið hjá honum að ná efsta sæti listans, fyrir leik enska liðsins gegn Norður-Makedóníu í kvöld, svaraði Southgate:
„Langar mig til að komast á topp heimslistans. Já, svo sannarlega, því slíku takmarki nærðu aðeins með miklum stöðugleika, og með því að spila vel á stórmótunum því stigin þar eru dýrmætari en hin. Það gefur líka allri okkar vinnu gildi, hvort sem það er innan æfingasvæðisins eða utan,“ sagði Southgate.
Enska liðið hefur þegar tryggt sér sæti í lokakeppni EM fyrir leikinn gegn Norður-Makedóníu en Southgate vill ekki slaka neitt á.
„Við gætum komist upp í þriðja sæti listans hvenær sem er og við megum ekki fara illa að ráði okkar í svona leikjum,“ sagði enski landsliðsþjálfarinn.
Fimm efstu lið heimslistans á þessari stundu eru Argentína, Frakkland, Brasilía, England og Belgía.