West Ham brjálað yfir meiðslum Antonio

Michail Antonio í leik með West Ham United á tímabilinu.
Michail Antonio í leik með West Ham United á tímabilinu. AFP/Justin Tallis

Knattspyrnumaðurinn Michail Antonio, sóknarmaður West Ham United, meiddist á hné í leik Jamaíku, sem Heimir Hallgrímsson þjálfar, og Kanada í Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku um helgina.

Leikurinn fór fram í Kingston í Jamaíku og töpuðu lærisveinar Heimis að lokum 1:2, og róðurinn því erfiður fyrir Jamaíku fyrir síðari leik liðanna.

Antonio meiddist snemma leiks en hélt þrátt fyrir það leik áfram áður en honum var skipt af velli um tíu mínútum síðar, um miðjan fyrri hálfleik.

Óttast krossbandaslit

Telegraph greinir frá því að West Ham sé verulega ósátt við þessi vinnubrögð og ekki síst þar sem forsvarsmönnum félagsins þótti ástandið á grasvellinum á þjóðarleikvangi Jamaíku alls ekki nægilega gott.

Hamrarnir óttast að Antonio hafi meiðst alvarlega á hné. Vonir standa til þess að hann hafi einungis skaddað liðband í hné og verði þá frá í um sex vikur. Í versta falli óttast félagið hins vegar að krossbandið sé slitið, sem myndi þýða um níu mánaða fjarveru.

Antonio mun á næstu dögum fara í myndatöku sem mun leiða í ljós hversu alvarleg meiðslin eru.

mbl.is