Arsenal bauð upp á markaveislu

Gabriel og Martin Ödegaard fagna fyrsta marki Arsenal í kvöld.
Gabriel og Martin Ödegaard fagna fyrsta marki Arsenal í kvöld. AFP/Justin Tallis

Arsenal tók á móti Newcastle í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Heimamenn fóru á kostum og buðu upp á sýningu í fimm marka leik og höfðu að lokum sigur, 4:1.

Eftir leikinn er Arsenal í 3. sæti deildarinnar með 58 stig, einu stigi á eftir Manchester City og tveimur stigum á eftir toppliði Liverpool. Newcastle er hinsvegar enn í 8. sæti deildarinnar með 37 stig.

Það var á 18. mínútu sem fyrsta mark leiksins leit ljós en það var sjálfsmark hollenska varnarmannsins Sven Botman. Bukayo Saka tók þá hornspyrnu sem fór á kollinn á Gabriel. Brasilíski varnarmaðurinn náði góðum skalla að marki sem Loris Karius varði vel í marki gestanna. Gestirnir náðu þó ekki að hreinsa frá marki og endaði klaufaskapurinn með því að boltinn fór af hnéinu á Botman og yfir marklínuna. Heimamenn komnir með forystu.

Kai Havertz fagnar marki sínu í kvöld.
Kai Havertz fagnar marki sínu í kvöld. AFP/Justin Tallis

Sex mínútum síðar var Kai Havertz búinn að tvöfalda forystu heimamanna. Jorginho sendi þá boltann innfyrir í hlaupið hjá Gabriel Martinelli. Brasilíski landsliðsmaðurinn gerði vel og sendi boltann aftur fyrir markið þar sem Havertz var einn og óvaldaður á markteig gestanna og setti hann boltann í markið framhjá varnarlausum Karius.

Heimamenn stjórnuðu leiknum frá fyrstu mínútu og áttu gestirnir fá svör við leik Arsenal-manna. Á 65. mínútu skoraði Bukayo Saka fimmta deildarleikinn í röð. Havertz sendi þá boltann út til hægri á Saka sem fór illa með Tino Livramento, varnarmann Newcastle, áður en hann sneri boltann í fjærhornið framhjá Karius í markinu.

Declan Rice og Jakub Kiwior fagna marki þess síðarnefnda í …
Declan Rice og Jakub Kiwior fagna marki þess síðarnefnda í kvöld. AFP/Justin Tallis

Aðeins fjórum mínútum síðar kom fjórða og síðasta mark heimamanna en þar var að verki pólski varnarmaðurinn Jakub Kiwior. Declan Rice tók þá hornspyrnu sem fór beint á kollinn á Kiwior sem náði góðum skalla að marki. Boltinn breytti aðeins um stefnu eftir viðkomu við Lewis Miley, leikmann Newcastle, sem virtist fipa Karius í markinu og réði hann ekki við skallann.

Gestirnir náðu að skora sárabótarmark á 84. mínútu en þar var að verki fyrrum leikmaður Arsenal, Joe Willock. Dan Burn átti þá flotta fyrirgjöf á Willock sem náði flottum skalla sem fór framhjá David Raya í marki Arsenal og þaðan í stöngina og inn.

Næsti leikur Arsenal er mánudaginn 4. mars nk. en þá fer liðið í heimsókn til Sheffield United. Newcastle leikur næst í deildinni þann 2. mars nk. gegn Wolves á heimavelli.

Arsenal 4:1 Newcastle opna loka
90. mín. Uppbótartími verður að lágmarki 5 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert