Með 100 prósent árangur gegn Englandi

Jóhann Berg Guðmundsson á Wembley í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson á Wembley í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, lék sama leik á Wembley í kvöld og í Nice fyrir átta árum þegar íslenska liðið sigraði það enska, 1:0, í vináttulandsleik í London.

Jóhann var í liði Íslands sem vann England 2:1 í 16-liða úrslitum Evrópukeppninnar í Frakklandi árið 2016 og er því með 100 prósent árangur í þeim tveimur leikjum sem hann hefur spilað gegn Englendingum.

„Það er mjög skemmtilegt að hafa unnið þá tvisvar. Tveir sigrar í tveimur leikjum og sérstaklega að koma hingað á Wembley og vinna þá. Þetta var vissulega æfingaleikur en við vildum sýna hvað gætum," sagði Jóhann sem sjálfur hefur spilað í átta ár á Englandi og leikurinn því mjög sérstakur fyrir hann.

„Þetta var mjög erfitt, við vissum að þeir yrðu mikið með boltann og við yrðum að verjast. En við sýndum að við erum góðir þegar við þorðum að halda í boltann.

Við erum að byggja ofan á það sem við höfum gert í undanförnum leikjum, sérstaklega eftir svekkjandi tap gegn Úkraínu.

Mér finnst við vera búnir að finna ákveðna formúlu sem við viljum spila eftir og þurfum að halda áfram á þessari braut og taka þetta með okkur í næstu leiki. Við erum á leið í leik gegn Hollandi sem verður eflaust svipaður þessum að mörgu leyti og þar þurfum við að halda okkar striki," sagði Jóhann Berg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert