Góðar fréttir af Liverpool-goðsögninni

Alan Hansen.
Alan Hansen. Ljósmynd/Liverpoolfc.com

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Alan Hansen, goðsögn Liverpool, er á batavegi eftir að hafa verið lagður alvarlega veikur inn á spítala um þarsíðustu helgi.

Graeme Souness, fyrrverandi liðsfélagi Hansen hjá Liverpool og skoska landsliðinu, sagði í samtali við TalkSport að hann hefði heyrt í Hansen í síma.

„Ég talaði við hann í gær [á sunnudag] og hann hljómaði frábærlega þannig að ég vona að hann sé á leiðinni að ná fullum bata.

Ég hef verið að ræða við son hans og Janet eiginkonu hans og heyrt í honum í síma,“ sagði Souness.

Gerði grín að mér

Hansen fagnaði 69 ára afmæli sínu í síðustu viku. Souness viðurkenndi að hafa óttast það versta þegar hann sá að hringt var úr símanúmeri Hansen.

„Ég fór í lestina á sunnudag og var að leita að sætinu mínu þegar síminn hringdi og ég vissi að það var stóri Al. Ég hugsaði með mér: „Ó nei, ekki svara þessu.“

Ég settist niður og fann kjarkinn til þess að hringja til baka og hann svaraði símanum. Hann er pottþétt á batavegi því það eina sem hann gerði var að gera grín að mér.

Hann er búinn að vera á erfiðum stað en miðað við hvernig hann hljómaði í gær er hann kominn aftur. Ég vona að ég hafi rétt fyrir mér þar,“ sagði Souness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert