Danski strákurinn Chido Obi-Martin hefur tekið tilboði enska knattspyrnufélagsins Manchester United um samning en hann yfirgaf Arsenal í sumar þegar unglingasamningur hans þar rann út.
Obi-Martin sló í gegn með Arsenal síðasta vetur þegar hann skoraði 10 mörk í risasigri unglingaliðsins á Liverpool, 14:3.
Hann var eftirsóttur í Þýskalandi og samkvæmt enskum fjölmiðlum stóðu honum betri tilboð til boða þar en Daninn hefur nú valið United, samkvæmt frétt Sky Sports.
Obi-Martin erfæddur í Glostrup í Danmörku og á nígeríska foreldra. Hann lék með yngri flokkum KB í Kaupmannahöfn áður en hann fór til Arsenal fyrir tveimur árum, þá fjórtán ára gamall. Hann var ári síðar kominn í U18 ára lið Arsenal og skoraði þar þrennu í fyrsta byrjunarliðsleiknum.
Markaleikurinn mikli gegn Liverpool var með U16 ára liðinu í nóvember og hann fylgdi því eftir með því að skora sjö mörk fyrir U18 ára liðið í apríl þegar það vann Norwich 9:0.
Obi-Martin er gjaldgengur í landslið Danmerkur, Englands og Nígeríu. Hann hefur leikið með dönsku U16 og U17 ára liðunum og líka tvo leiki með enska U16 ára liðinu.
Hann lék með danska U17 ára landsliðinu í lokakeppni EM í sumar, þar sem það komst í undanúrslit, var valinn í úrvalslið mótsins, og hefur skorað 10 mörk í 14 landsleikjum í þeim aldursflokki.