Dýrasti leikmaður deildarinnar missti sjálfstraustið

Moises Caicedo.
Moises Caicedo. AFP/Kamil Krazaczynski

Moises Caicedo, leikmaður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, var keyptur fyrir 115 milljónir punda árið 2023 og fannst fyrsta tímabilið hjá félaginu erfitt.

Hann fann fyrir mikilli pressu þar sem hann er dýrasti leikmaður í ensku úrvalsdeildinni en Chelsea og Liverpool vildu bæði fá hann í sínar raðir.

Hann skoraði aðeins eitt mark og lagði upp fjögur í 48 leikjum á síðasta tímabili og Chelsea endaði í sjötta sæti.

„Þetta var erfitt í upphafi hjá mér, þú ert hjá stóru félagi, kaupverðið, þú verður að vinna alla leiki. Ég var hjá Brighton, pressan var minni, þetta er öðruvísi hjá Chelsea. Ég fann fyrir miklu álagi því þú þekkir félagið, söguna og leikmenn sem voru hér. Síðustu fjóra til fimm mánuði hefur mér liðið betur.

Ég missti sjálfstraust, ég er góður leikmaður og veit hvernig leikmaður ég er en stundum ef þú ert ekki nógu sterkur andlega þá er það erfitt,“ sagði Caicedo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert