Kompany hellti sér yfir Jóhann Berg

Jóhann Berg Guðmundsson, Vincent Kompany og Zeki Amdouni eftir leik …
Jóhann Berg Guðmundsson, Vincent Kompany og Zeki Amdouni eftir leik á síðasta tímabili. AFP/Darren Staples

Í myndbandi úr þáttunum Mission to Burnley sést Vincent Kompany, fyrrverandi knattspyrnustjóri enska knattspyrnufélagsins Burnley, hella sér yfir íslenska landsliðsmanninn Jóhann Berg Guðmundsson.

Mission to Burnley eru heimildarþættir um tímabilið 2023/24 hjá Burnley þegar liðið féll en Kompany hætti með liðið eftir það.

Í þáttunum sést Kompany taka Jóhann Berg fyrir og öskra á hann fyrir framan allt liðið á æfingu.

„Er eitthvað sem þú vilt segja við liðið?“

„Ekki láta reyna á þolinmæði mína. Hættu að kvarta. Spilaðu fótbolta, af hverju þarftu að kvarta yfir öllu? Spilaðu bara, hversu oft þarf ég að segja þér að spila bara,“ öskraði Kompany á Jóhann og elti hann svo til þess að öskra meira á hann þegar Jóhann labbaði í burtu.

„Er eitthvað sem þú vilt segja við liðið? Viltu segja eitthvað, þú ert stór strákur,“ sagði Kompany og Jóhann svaraði honum.

„Yfir hverju hef ég kvartað í dag?,“ spurði Jóhann.

„Líkamstjáningin þín er ömurleg og ég er ósáttur með þetta,“ sagði Kompany sem gekk í burtu, sneri sér við og öskraði aðeins meira á Jóhann en hætti að lokum.

Burnley féll niður í B-deild og Kompany hætti. Hann stýrir nú þýska stórliðinu Bayern München.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert