Enski knattspyrnumaðurinn Aaron Wan-Bissaka er genginn til liðs við West Ham United frá Manchester United. Kaupverðið er 15 milljónir punda og skrifaði Wan-Bissaka undir sjö ára samning við Hamrana.
Wan-Bissaka er 26 ára bakvörður sem gekk til liðs við Man. United frá Crystal Palace sumarið 2019 og greiddu Rauðu djöflarnir þá 50 milljónir punda fyrir hann.
Á fimm tímabilum lék Wan-Bissaka 190 leiki fyrir Man. United í öllum keppnum og skoraði tvö mörk. Hann vann ensku bikarkeppnina á síðasta tímabili með liðinu og enska deildabikarinn árið áður.
Wan-Bissaka er áttundi leikmaðurinn sem West Ham fær til liðs við sig í sumar en áður hafði félagið fest kaup á Niclas Füllkrug, Crysencio Summerville, Luis Guilherme og Max Kilman auk þess að fá Guido Rodríguez og Wes Foderingham á frjálsri sölu og Jean-Clair Todibo að láni frá Nice.