Enski knattspyrnumaðurinn Cole Palmer hefur skrifað undir tveggja ára framlengingu á samningi sínum við enska félagið Chelsea. Nýi samningurinn rennur út eftir níu ár, sumarið 2033.
Fyrri samningur Palmers átti að renna út árið 2031. Hann átti frábært fyrsta tímabil fyrir Chelsea eftir að hafa komið frá Manchester City fyrir tæpu ári síðan.
Palmer er 22 ára sóknartengiliður og kantmaður sem skoraði 22 mörk í 33 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og alls 25 mörk í 45 leikjum í öllum keppnum.
Hann skoraði mark enska landsliðsins í 2:1-tapi fyrir Spáni í úrslitaleik EM 2024 í Þýskalandi í sumar.