Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að ensku landsliðsmennirnir Raheem Sterling og Ben Chilwell eigi sér ekki framtíð hjá liðinu.
„Ég reyni alltaf að vera heiðarlegur. Ég sagði Raheem að hann myndi eiga í erfiðleikum með að fá mínútur hjá okkur og Chilly myndi líka eiga í erfiðleikum,“ sagði Maresca á fréttamannafundi í dag.
Fyrr í vikunni var haft eftir Maresca á öðrum fréttamannafundi að hann myndi vilja halda Sterling en nú er annað hljóð í ítalska stjóranum.
„Ég hef verið heiðarlegur, hann mun ekki fá neinar mínútur hér. Ég er ekki að halda því fram að Raheem sé ekki góður leikmaður en ég vil frekar öðruvísi tegund af vængmönnum. Það er ekki flóknara en það.“
Maresca sagði það þá af og frá að hann væri að stýra æfingum með um 40 leikmönnum, sem hópur aðalliðs Chelsea samanstendur af.
„Ég er ekki að vinna með 42 leikmönnum, ég er að vinna með 21 leikmanni. Hinir 15-20 leikmennirnir eru að æfa annars staðar. Ég hitti þá ekki.
Þetta er ekki allt í rugli eins og þetta lítur út að utan. Alls ekki. Þeir geta verið með 20 ára samninga, það kemur mér ekkert við. Mér er alveg sama.“