Gætum verið í vandræðum

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea.
Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea. AFP/Grant Halverson

Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að vandræði gætu komið upp takist félaginu ekki að fækka verulega í rúmlega 40 manna leikmannahópi karlaliðsins.

Chelsea hefur samið við 11 nýja leikmenn í sumar og þarf nauðsynlega að losa sig við fjölda leikmanna áður en félagaskiptaglugganum á Englandi verður lokað í lok mánaðarins.

„Í augnablikinu er ég að vinna með 21-23 leikmönnum, ekki 42 leikmönnum. Annað væri ómögulegt.

Það er ekki mögulegt fyrir nokkurn stjóra í heiminum að stýra æfingu með 45 leikmönnum. Það er ómögulegt. Það er ekki hægt að gera það,“ sagði Maresca á fréttamannafundi í dag.

Allir ánægðir ef lausnir finnast

Um 15-20 manna hópur æfir ekki með aðalliði Chelsea um þessar mundir, þeirra á meðal ensku landsliðsmennirnir Raheem Sterling og Ben Chilwell.

„Ég tjái leikmönnum hverjum mér líkar við og hverjum mér líkar ekki við. Þar sem það er ein vika eða tíu dagar eftir af félagaskiptaglugganum vonast ég til þess að við finnum lausnir fyrir alla þessa leikmenn.

Þegar maður finnur lausnir eru allir ánægðir. Þegar maður finnur ekki lausnir getur það skapað vandamál,“ bætti Ítalinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert