Mikið verk að vinna ef hann vill halda starfinu

Erik ten Hag átti að fá svör á hliðarlínunni gegn …
Erik ten Hag átti að fá svör á hliðarlínunni gegn Liverpool. AFP/Paul Ellis

Spilamennskan enska knattspyrnufélagsins Manchester United verður að batna til muna ef Hollendingurinn Erik ten Hag vill halda starfi sínu sem stjóri liðsins.

Það er The Guardian sem greinir frá þessu en Jason Wilcox, yfirmaður tæknimála hjá félaginu, var ráðinn til félagsins í sumar til þess að greina leiki aðalliðsins í þaula.

Spilamennska liðsins hefur ekki verið góð í fyrstu þremur leikjum tímabilsins en United situr í 14. sæti úrvalsdeildarinnar með þrjú stig.

United var undir á öllum sviðum leiksins í 3:0-tapinu gegn Liverpool um síðustu helgi og The Guardian greinir frá því að eftir ítarlegar greiningar hjá tæknideild félagsins sé fátt um jákvæða punkta þegar kemur að spilamennskunni í upphafi tímabilsins.

Í frétt miðilsins kemur fram að ten Hag verði að sýna forráðamönnum félagsins að liðið geti stjórnað þeim leikjum sem það spilar. Ef ekki þá verði honum sagt upp störfum en hann framlengdi samning sinn við enska félagið í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert