Ron Yeats, fyrrverandi fyrirliði karlaliðs Liverpool í knattspyrnu, er látinn 86 ára að aldri eftir nokkurra ára baráttu við Alzheimersjúkdóminn.
Skotinn Yeats var lykilmaður og fyrirliði Liverpool á sjöunda áratug síðustu aldar þegar liðið varð Englandsmeistari tvisvar, vann ensku bikarkeppnina einu sinni og vann ensku B-deildina einu sinni undir stjórn Bills Shanklys.
Alls lék hann 454 leiki fyrir Liverpool og skoraði í þeim 15 mörk frá 1961 til 1971. Þar af var Yeats fyrirliði í 400 leikjum. Aðeins Steven Gerrard hefur verið fyrirliði í fleiri leikjum í sögu Liverpool.
Yeats var harðskeyttur miðvörður sem Shankly lýsti sem „risa“ í sögu í Liverpool.