Bráðabirgðastjóri enska landsliðsins í knatttspyrnu, Lee Carsley, segir England verða að ráða hæfasta þjálfara sem völ er á. Góð frammistaða Englands undir stjórn Carsley gegn Írum á laugardaginn er talin auka möguleika hans að verða aðalþjálfari liðsins.
Aðspurður hvort Carsley teldi möguleika hans á að hreppa starfið hafa aukist með 2:0 sigrinum á Aviva vellinum gegn lærisveinum Heimis Hallgrímssonar sagði Carsley „Ég reyni að hugsa ekki of mikið um sjálfan mig. Sá hæfasti í starfið verður ráðinn. Ég þekki mitt hlutverk sem er að stýra liðinu í næstu þremur landsleikjagluggum og mér líður vel í því starfi“.
Carsley mun stýra enskum í fimm leikjum í viðbót í haust og er því í góðri stöðu til að sýna hvers hann er megnugur. Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, er einnig orðaður við stöðuna en nöfn Graham Potter, Pep Guardiola og Jürgen Klopp hafa einnig verið nefnd. Þeir tveir síðastnefndu þó aðeins hjá bjartsýnustu mönnum.